Íslenska kokkalandsliðið keppir á heimsmeistaramótinu í matreiðslu sem fram fer í Lúxemborg síðar á árinu og fylgir eftir framúrskarandi árangri liðsins frá síðasta móti sem skilaði liðinu í 5. sæti. Liðið er á lokaspretti í sínum 18 mánaða undirbúningi og ná hámarki með haustinu. Stuðningur íslenskra fyrirtækja skiptir sköpum fyrir Kokkalandsliðið sem rekið er af Klúbbi matreiðslumeistara og er því mikið ánægjuefni að tilkynna að Ísey skyr hefur gengið til liðs við liðið sem einn bakhjarla þess.

Ylfa Helgadóttir er þjálfari Kokkalandsliðsins; „Við leggjum mikið upp úr því að sýna það allra besta úr íslenskri matarhefð á nútímalegan hátt og þess vegna er skyrið alltaf partur af okkar matseðlum. Með Ísey skyri getum við framreitt hágæða rétti sem þykja um leið passa tíðarandanum og falla í kramið hjá bæði gestum og dómurum sem taka út matinn okkar og vinnuna. Ísey skyr hefur átt mikilli velgengni að fagna á erlendri grundu líkt og liðið okkar og erum við því viss um að þetta samstarf muni auka hróður beggja sem víðast.“

Heimsmeistaramót í matreiðslu, er haldið á fjögurra ára fresti og fer fram dagana 23.-28. nóvember í Lúxemborg. Á mótinu mætast margir af færustu kokkum heimsins og þar er keppt í tveimur greinum. Annars vegar er keppt í svokölluðu köldu borði eða „Culinary Art Table“ og hins vegar í heitum réttum eða „Hot Kitchen“. Í keppninni um heitu réttina er útbúinn þriggja rétta matseðill með forrétti, aðalrétti og eftirrétti sem eldaður er frá grunni á keppnisstað fyrir 110 gesti. Kokkalandsliðið vinnur með alíslenskar áherslur í gegnum keppnina og lögð er mikil áhersla á sérvalið sígilt íslenskt hráefni. Hráefni þetta er notað til að útbúa þriggja rétta heita máltíð og mun liðið á næstu mánuðum ljúka þróun á keppnisréttunum þar sem íslenskur þorskur, íslenskt lamb og Ísey skyr verða í aðalhlutverkum.