Stuðningur þjóðarinnar er Kokkalandsliðinu afar mikilvægur og er ánægjulegt að tilkynna að frú Eliza Reid forsetafrú hefur gerst verndari þess. Kokkalandsliðinu er það mikill heiður að frú Eliza veiti því með þeim hætti styrk í verkefnum þess. Kokkalandsliðið er skipað einstaklingum af báðum kynjum með fjölbreyttan bakgrunn víða að úr veröldinni, sem með reynslu sinni og færni  þróa nútíma íslenskt eldhús og skapa jafnframt faginu fjölbreyttar fyrirmyndir. Liðið keppir stolt fyrir hönd íslensku þjóðarinnar í alþjóðlegum stórkeppnum og þróar um leið íslenskt eldhús og matarhefðina.

Frú Eliza Reid:

„Kannski má segja að það að kynnast matarsmekk þjóðar sé um leið að fá innsýn í sálarlíf hennar. Á undanförnum árum hefur gróskan í íslenskri matargerðarlist aukist gríðarlega og þá kemur sér auðvitað vel að hafa aðgang að því fjölbreytta og holla hráefni sem hér er á boðstólum. Mér finnst afskaplega gaman að vera verndari Kokkalandsliðsins sem ætlar að sýna heiminum þessa áhugaverðu hlið hinnar íslensku þjóðarsálar og ég hlakka til samstarfs við þetta öfluga lið.“